Til hvers notar maður mengi?

Mengjafræðin umlykur í raun allt okkar líf, við getum byrjað á því að skoða fataskápinn okkar, en flest geymum við fötin okkar þar. Sumir kunna að hafa öll sín föt út um allt eða í einum graut í skápnum en margir flokka fötin sín og geyma nærföt sér, sokka sér, hengja sumt upp og brjóta annað saman. Fataskápur er því eins og mengi með fullt af hlutmengjum, sokkamengi, nærbuxnamengi, buxnamengi, peysumengi, skyrtumengi og þannig mætti áfram telja.

Í eldhúsum flestra eru líka skápar fyrir áhöldin og flokkum við og röðum saman í hlutmengi hinum mismunandi eldhúsáhöldum. Pottar og pönnur eru hlutmengi eldhúsáhalda sem raðað er saman. Hnífapör eru gjarnan öll saman í einni skúffu og eru þá gjarnan flokkuð upp í hólfaða kassa þar sem skeiðar eru sér, gafflar sér, hnífar sér og oft er hólf fyrir teskeiðar líka.

Bækur eru flokkaðar á bókasöfnum, haldið er utan um reikningshald í fyrirtækjum þar sem samskonar útgjöld og tekjur eru flokkuð saman í hlutmengi innan bókhaldsins.