Punktur – lína – flötur – strik

Punktur

Punktur er ein óendanlega lítil, stærðarlaus staðsetning í rými. Punktar eru yfirleitt táknaðir með stórum bókstaf A,B,C…..

Lína

Lína er óendanlega mjó og bein og endalaust safn punkta sem liggja svo þétt að ekki er hægt að greina þá í sundur. Í gegnum tvo ólíka punkta liggur ein og aðeins ein lína og lína er óendanleg í báðar áttir.

Stysta leiðin milli tveggja punkta liggur á línunni  í gegnum punktana. Línur eru yfirleitt táknaðar með litlum bókstöfum eins og l,m og n.

Þar sem línur eru endalausar þá er ekki hægt að sýna nema hluta þeirra á mynd og því verður maður að gera sér í hugarlund að þær séu endalausar í báðar áttir.

Ef tvær ólíkar línur hafa sameiginlegan punkt þá er sagt að línurnar skerist í punktinum og punkturinn kallast skurðpunktur línanna. Tvær mismunandi línur geta aðeins haft einn sameiginlegan punkt.

Skurðpunktur línanna l og m er punkturinn A

Flötur

Sléttur flötur sem inniheldur línur og punkta sem þekja flötinn er jafn óendanlegur í allar áttir eins og línurnar sem liggja í fletinum. Á sama hátt og lína er óendanleg í báðar áttir er flötur óendanleg víðátta til allra átt.

Strik

Í gegnum tvo ólíka punkta A og B liggur nákvæmlega ein lína. Það safn punkta sem liggur á línunni milli punktanna A og B, ásamt punktunum A og B kallast strikið AB. Punktarnir A og B kallast endapunktar striksins.

Punktarnir A og B afmarka enda punkta striksins AB á ótilgreindri línu

Hálflína

Punktur A á tiltekinni línu l skiptir línunni í tvær hálflínur. Tveir punktar tilheyra sömu hálflínu ef þeir liggja sömu megin við punktinn A. Punkturinn A tilheyrir báðum hálflínunum og kallast upphafspunktur þeirra.

Punkturinn A skiptir línu upp í tvær hálflínur